Sex HSK-met féllu á Vormóti HSK í frjálsum íþróttum sem haldið var í blíðskaparveðri á Selfossi í síðustu viku.
Kristján Kári Ólafsson, Umf. Selfoss, stórbætti HSK metið í sleggjukasti 16-17 ára drengja með 5 kg sleggju og vann gullverðlaunin í þessum flokki. Gamla metið átti Benjamín Guðnason, Umf. Selfoss, sem var 40,38 metrar. Kristján þríbætti HSK metið og kastaði lengst 47,80 metra. Hann stórbætti einnig sinn persónulega árangur, en hann átti fyrir mótið 35,96 metra.
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, tók sömuleiðis gullið og setti HSK met í kúluvarpi í flokki 16-17 ára drengja með 5 kg kúlu. Hann kastaði 15,89 og bætti 11 ára gamalt met Sveinbjörns Jóhannessonar, Umf. Laugdæla, um 45 sentimetra. Þetta er stórbæting hjá Hjálmari, en hann átti best 14,71 metra frá því í fyrra.
Þá tvíbætti Örn Davíðsson, Umf. Selfoss, öldungametið í spjótkasti í flokki 35-39 ára karla. Unnar Garðarsson, Umf. Skeiðamanna, átti metið í þessum flokki, 58,90 m, en Örn bætti það með því að kasta 62,26 m og bætti svo um betur með því að kasta 64,66 m. Hann vann gullverðlaun í spjótkastinu og kast hans reyndist vera besta afrekið í karlaflokki á Vormótinu samkvæmt alþjóðlegri stigatöflu.
Sunnlendingar unnu þrenn gullverðlaun til viðbótar á mótinu. Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, sigraði í 300 m hlaupi kvenna á 51,39 sek, Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í spjótkasti stúlkna 16-17 ára með kast upp á 44,61 m og Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, sigraði í langstökki karla þegar hann stökk 6,43 m.