HSK/Selfoss varð í 4. sæti í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands innanhúss sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi. Sex HSK met voru sett á mótinu.
Ívar Ylur Birkisson kom fimmti í mark í 60 m grindahlaupi á tímanum 8,67 sek. Hann bætti þar með héraðsmetin í þremur flokkum; 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára en gömlu metin átti Dagur Fannar Einarsson.
Þá sló kvennasveit HSK/Selfoss tvö hálfsmánaðar gömul met í 4x200m boðhlaupi í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára þegar þær urðu í 4. sæti á tímanum 1:50,82 mín og bættu sig um 0,81 sekúndu. Sveitina skipuðu þær Anna Metta Óskarsdóttir, Hugrún Birna Hjaltadóttir og Arndís Eva Vigfúsdóttir og Helga Fjóla Erlendsdóttir.
Kristinn Þór Kristinsson mætti enn og aftur á hlaupabrautina og hlaut silfurverðlaun í 1.500 m hlaupi á tímanum 4:07,15 mín sem er héraðsmet í öldungaflokki 35-39 ára.
Keppendur frá HSK/Selfoss náðu í tvenn silfurverðlaun til viðbótar en Hjálmar Vilhelm Rúnarsson og Anna Metta Óskarsdóttir urðu bæði í 2. sæti í þrístökki. Þá tók Örn Davíðsson bronsið í kúluvarpi og Helga Fjóla Erlendsdóttir nældi í bronsið í langstökki.
Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, varð í 3. sæti í þrístökki en Katla var hluti af sameiginlegu liði UFA, HHF og Kötlu sem varð í 6. sæti í stigakeppninni.



