Sex gull til HSK/Selfoss á seinni degi MÍ

Keppendur frá HSK/Selfoss unnu til sex gullverðlauna á seinni degi Meistaramóts 15-22 ára í frjálsum íþróttum innanhúss í Laugardalshöllinni í dag.

Guðrún Heiða Bjarnadóttir bætti við verðlaunasafnið frá því á fyrri degi mótsins með því að sigra með yfirburðum í þrístökki 15 ára stúlkna. Guðrún Heiða stökk 10,50 m í síðasta stökki sínu.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir sigraði í 200 m hlaupi 15 ára stúlkna á 27,07 sek og Dagur Fannar Magnússon sigraði í kúluvarpi 18-19 ára ungkarla með kast upp á 11,71 m.

Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 400 m hlaupi ungkarla eftir harða keppni. Kristinn hljóp á 51,42 sek.

Eva Lind Elísdóttir sigraði í kúluvarpi 16-17 ára meyja með 10,68 m í síðasta kasti sínu. Þá vann hún bronsverðlaun í 200 m hlaupi þar sem hún hljóp á 27,24 sek. Eva Lind varð svo í 3.-4. sæti í 60 m grindahlaupi á 9,43 sek.

Fjóla Signý Hannesdóttir bætti við fjórðu silfurverðlaunum sínum um helgina í 60 m grindahlaupi þar sem hún hljóp á 9,50 sek.

Ástþór Hermannsson varð þriðji í stangarstökki 16-17 ára sveina, stökk 2,40 m.

Theodóra Jóna Guðnadóttir varð í 3.-4. sæti í stangarstökki 16-17 ára meyja, stökk 2,20 m.

Stúlknasveit HSK/Selfoss sigraði í 4×200 m boðhlaupi á tímanum 1:52,36 mín og meyjasveit HSK/Selfoss varð í 3. sæti í sömu grein á tímanum 2:06,18. Sveinasveit HSK/Selfoss vann silfur í 4×200 m boðhlaupi á tímanum 1:51,74 og ungkvennasveit HSK/Selfoss 20-22 ára varð í 2. sæti í 4×400 m boðhlaupi á 4:09,63 mín.