Sex grunnskólamet slegin

185 keppendur í 1.-10. bekk Vallaskóla, Sunnulækjarskóla og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri tóku þátt í Grunnskólamóti Árborgar í frjálsum íþróttum sem haldið var á Selfossi í síðustu viku.

Glæsilegur árangur náðist í mörgum greinum og voru sex grunnskólamet slegin á mótinu. Keppnisaðstæður voru mjög góðar en meðvindur var í langstökki og spretthlaupum hjá öllum flokkum og var hann yfir leyfilegum mörkum. Í mjög mörgum greinum var árangur yfir gildandi grunnskólametum en til að met fáist staðfest má vindur ekki fara yfir 2,0 m á sek.

Harpa Svansdóttir, Vallaskóla, sigraði allar fjórar greinarnar í flokki 9.-10. bekkjar og setti grunnskólamet í kúluvarpi. Hún var vel yfir núgildandi meti í langstökki en vindur yfir leyfilegum mörkum.

Helga Margrét Óskarsdóttir, Vallaskóla, sigraði í langstökki, spjótkasti og kúluvarpi í flokki 7.-8. bekkjar og Barbára Sól Gísladóttir, Vallaskóla, sigraði í 100 m hlaupi í sama flokki.

Guðjón Baldur Ómarsson, Vallaskóla, sigraði í spjótkasti og langstökki í flokki 7.-8. bekkjar og stökk þar yfir gildandi meti en vindur yfir leyfilegum mörkum. Valgarður Uni Arnarsson, Sunnulækjarskóla, sigraði í 100 m hlaupi og kúluvarpi í flokki 7.-8. bekkjar.

Í flokki 6. bekkjar stráka sigraði Hákon Birkir Grétarsson, Vallaskóla, í öllum þremur greinunum og setti grunnskólamet í kúluvarpi. Hákon Birkir hljóp hraðar í 60 m hlaupi og stökk lengra í langstökki en gildandi grunnskólamet en vindur var yfir leyfilegum mörkum. Hildur Helga Einarsdóttir, Vallaskóla, sigraði kúluvarpið á nýju grunnskólameti og stökk einnig lengst allra í langstökki í flokki 6. bekkjar og Bríet Bragadóttir, BES, hljóp hraðast allra stúlkna í 6. bekk í 60m hlaupi.

Eva María Baldursdóttir, Vallaskóla, sigraði í þremur greinum í flokki 5. bekkjar og hún hljóp hraðar í 60 m og stökk lengra í langstökki en gildandi met en vindur var yfir leyfilegum mörkum. Hjalti Snær Helgason, Vallaskóla, setti grunnskólamet í kúluvarpi í flokki 5. bekkjar og sigraði en Aron Fannar Birgisson Vallaskóla sigraði í 60 m hlaupi og langstökki og var árangur í báðum tilfellum yfir gildandi metum en vindur of mikill.

Í flokki 1.-4. bekkinga fengu allir þátttökuverðlaun en tvö grunnskólamet litu dagsins ljós hjá yngstu keppendunum. Í kúluvarpi bætti Benjamín Guðnason, Sunnulækjarskóla, metið hjá piltum 4. bekkjar og Eydís Arna Birgisdóttir, Vallaskóla, bætti grunnskólametið í langstökki 1. bekkjar stúlkna þrátt fyrir að hafa lent í öðru sæti í keppninni. Stúlkan í fyrsta sætinu náði ekki löglegum vindi í sínum stökkum.

Úrslit mótsins má sjá á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands.

Fyrri greinKynningarfundur um Landsmót 50+
Næsta greinFrábær leikskóli: Hundrað prósent almenn ánægja foreldra