Setur Daníel Norðurlandamet?

Daníel Geir Einarsson, Umf. Selfoss, er eini sunnlenski keppandinn á 2. Kópavogsmótinu í kraftlyftingum sem fram fer á laugardag.

Mótshaldarar telja líklegt að fjöldi nýrra Íslandsmeta verði mikill á þessu móti, í öllum keppnis- og aldursflokkum. Þá er mögulegt að ný Norðurlandamet U18 ára unglinga falli á mótinu. Þar eru Daníel Geir og Júlían Jóhannsson líklegir til afreka en mikill möguleiki er á að Júlían geri atlögu að nýju Norðurlandameti yngri unglinga í réttstöðulyftu.

Tuttugu lyftingamenn eru skráðir til leiks, fjórar konur og sextán karlar, en mótið hefst kl. 13:00 í Smáranum.