„Setti upp Pepsihúfuna í tilefni dagsins“

„Þetta var frábært. Stelpurnar blómstruðu í leiknum og ég átti von á góðum sigri,“ sagði Björn Kristinn Björnsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss eftir sigurinn á Keflavík.

„Það var skrekkur í stelpunum eftir fyrri leikinn en við fórum vel yfir málin og mættum alveg slakar hér til leiks og höfðum virkilega gaman að deginum. Ég tók smá áhættu, tók varamarkmanninn út úr hópnum og bætti Evu Lind sem er framherji úr 3. flokki inn í byrjunarliðið. Þar með losnaði þrýstingurinn sem var settur á Guðmundu og Keflvíkingar áttu í vandræðum með Evu Lind sem er fljót eins og hinar. Það er alltaf jafn leiðinlegt að taka út leikmann en þetta gekk upp hjá okkur,“ sagði Bubbi í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Þetta var þriðja viðureign Selfoss og Keflavíkur á árinu en fyrri tveir leikirnir voru jafnir. Bubbi segist hafa átt von á góðum sigri í dag. „Ég átti von á því. Ég setti upp Pepsihúfuna í tilefni dagsins enda átti ég von á góðum sigri. Kannski ekki endilega 6-1 en tvímælalaust öruggum sigri.“

Selfoss mætir FH í leik um deildarmeistaratitilinn en þjálfarinn segir að farið verði í þann leik með gleðina að leiðarljósi. „Við ætlum að hafa gaman í kvöld og svo sjáum við til. Ég set upp eins mikið af gleði og ég get í þann leik og veit ekki hvernig ég mun stilla upp liðinu. Ég ætla alls ekki í einhvern slag við FH. Markmiðið var að fara upp og FH-leikurinn er bara bónus. Það voru tæpir leikmenn fyrir þennan leik og ég vil að þær nái sér þannig að við sjáum bara til,“ segir þjálfarinn sem á von á kostnaðarsömu ári fyrir Selfyssinga á næsta ári.

„Nú þarf að fara að sameina einhver sveitarfélög hérna ef báðir meistaraflokkarnir verða í úrvalsdeildinni,“ sagði Bubbi með Pepsihúfuna að lokum.

Fyrri greinRangæingar í undanúrslit
Næsta grein„Við vorum ógeðslega stressaðar“