Set styður við knattspyrnu á Selfossi

Styrktarsamningur var undirritaður í dag á milli röraverksmiðjunnar Set á Selfossi og knattspyrnudeildar Selfoss. Set hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum deildarinnar síðustu áratugi og verður það áfram næstu tvö árin eftir undirritun þessa samnings.

Set hefur verið með auglýsingar á búningum meistaraflokka Selfoss undanfarin ár og einnig hefur knattspyrnudeildin haldið Set-mót fyrir 6. flokk síðustu ár og verður engin breyting á því næstu tvö árin. Þvert á móti er stefnt að því að hafa mótið enn stærra en síðustu ár og hafa þegar fjölmörg lið haft samband um þátttöku á mótinu næsta sumar.

Í nýja styrktarsamningnum er ákvæði sem forsvarsmenn Set óskuðu eftir að sett yrði inn í styrktarsamninginn um að 10% styrktarupphæðarinnar sem Set leggur til fari beint og óskipt í sjóðinn Knattspyrna fyrir alla, sem landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson kom á fót. Sjóðurinn er hugsaður til þess að styrkja unga knattspyrnuiðkendur sem eiga ekki kost á því að greiða æfingagjöld eða kaupa sér nauðsynlegan búnað til knattspyrnuiðkunar. Með þessu vill Set gera sitt til þess að ungir iðkendur geti stundað íþróttina burtséð frá fjárhagsstöðu heimilisins.

Samkvæmt forsvarsmönnum knattspyrnudeildarinnar er samningur sem þessi mikilvægur félaginu og samstarf við fyrirtækin á svæðinu ómetanlegt. Þannig er hægt að halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið hjá félaginu undanfarin ár. Einnig er Set-mótið mikilvægur hluti af þessu starfi og nú er ljóst að mótið árið 2017 verður það langstærsta til þessa, svo mikill er áhugi félaga á þátttöku.

Á myndinni með fréttinni eru Elías Örn Einarsson, þjónustu- og öryggisstjóri Set, Adolf Ingvi Bragason, formaður Knattspyrnudeildar Selfoss, Gunnar Borgþórsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Knattspyrnudeild Selfoss, og Ingi Rafn Ingibergsson og Guðjón Orri Sigurjónsson, leikmenn liðsins, við undirritun samningsins.

Frá þessu er greint á heimasíðu Set.