Senur í Njarðvík þegar Þór hirti stigin

Djordje Dzeletovic skoraði 23 stig og tók 8 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þær voru rosalegar lokamínúturnar í leik Njarðvíkur og Þórs í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Þór hafði að lokum eins stigs sigur, 92-93.

Njarðvík sigldi framúr í 1. leikhluta en Þórsarar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 51-53 í hálfleik. Það var allt í járnum í 3. leikhluta en Njarðvík virtist ætla að hirða sigurinn eftir 15-2 áhlaup í upphafi 4. leikhluta.

Þórsarar voru hins vegar ótrúlega seigir á lokakaflanum þar sem liðin skiptust á um að skora magnaðar körfur. Þegar fimm sekúndur voru eftir töpuðu Þórsarar boltanum en síðasta sniðskot Njarðvíkur hrökk af hringnum og Þór fagnaði mögnuðum sigri.

Djordje Dzeletovic var bestur í liði Þórs með 23 stig og 8 fráköst og Rafail Lanaras var sömuleiðis öflugur með 19 stig og 10 fráköst.

Þór er ennþá í 11. sæti deildarinnar, nú með 6 stig en Njarðvík er í 9. sæti með 8 stig.

Njarðvík-Þór Þ. 92-93 (33-27, 18-26, 19-20, 22-20)
Tölfræði Þórs: Djordje Dzeletovic 23/8 fráköst, Rafail Lanaras 19/6 fráköst/10 stoðsendingar, Jacoby Ross 17/8 fráköst/6 stoðsendingar, Lazar Lugic 9, Davíð Arnar Ágústsson 9, Emil Karel Einarsson 8/5 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 5, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 3.

Fyrri greinHamar og Selfoss töpuðu
Næsta greinStórskemmtileg sveitakeppni í skák