Sene tryggði sigurinn í lokin

Hamarsmenn líta vel út þessa dagana en þeir unnu sinn þriðja sigur í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld, þegar þeir fengu Dalvík/Reyni í heimsókn.

Lokatölur voru 2-1 en Sene Abdalha skoraði sigurmarkið á 90. mínútu.

Hamar var sterkari í leiknum en það voru gestirnir sem komust yfir á 19. mínútu en Abdoulaye Ndiaye jafnaði metin á 44. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var í járnum en Hamar hafði undirtökin og sóknarþungi þeirra jókst á lokamínútunum. Þannig lá sigurmarkið í loftinu síðustu fimm mínúturnar en Sene kláraði leikinn endanlega með marki á 90. mínútu.

Hamar er enn í 10. sæti deildarinnar en hefur aukið forskot sitt á fallsætin til muna í síðustu leikjum. Hamar hefur 17 stig en þar fyrir neðan eru Fjarðabyggð með 9 stig og KFR með 5.

Fyrri greinMikilvægt stig í húsi
Næsta greinFullorðinsball á gamla Hótel Hveragerði