Sene tryggði Hamri stig

Hamar og Grótta skildu jöfn, 3-3, í fjörugum leik á Grýluvelli í 1. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Hamar fékk óskabyrjun í leiknum en Sene Abdalha kom þeim yfir strax á 7. mínútu. Forystan var Hvergerðinga allt fram undir lok fyrri hálfleiks en þá skoruðu gestirnir tvö mörk á tveggja mínútna kafla og leiddu í leikhléinu, 1-2.

Grótta jók forskotið í 1-3 á 63. mínútu en sex mínútum síðar minnkaði fyrirliðinn Ágúst Örlaugur Magnússon muninn fyrir Hamar úr vítaspyrnu þegar Guðmundur Marteinn Hannesson braut á Sigurði Gísla Guðjónssyni. Guðmundur fékk rauða spjaldið fyrir vikið og Hamarsmenn því einum fleiri næstu mínútur.

Eftir þetta sóttu Hamarsmenn nokkuð í sig veðrið en Grótta varðist fimlega og reyndi að éta tímann af klukkunni. Sóknir Hamars báru loksins árangur á fimmtu mínútu uppbótartímans þegar Sene smellti boltanum í stöngina og inn og tryggði Hamri því eitt stig. Skömmu áður hafði Hrafnkeli Ágústssyni verið vísað af velli svo að bæði lið luku leik með tíu menn á vellinum.

Fyrri greinÁTVR opnar aftur á Hellu
Næsta greinSkuldahlutfallið komið niður fyrir 150%