Semmi tryggði Hamri sigur með tveimur mörkum í uppbótartímanum

Þorsteinn Daníel Þorsteinsson sækir að Rodrigo Depetris og Óliver Þorkelsson fylgist með. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tvö mörk í uppbótartíma frá varamanninum Przemyslaw Bielawski tryggðu Hamri 3-1 sigur á Árborg í Suðurlandsslag í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Liðin mættust á Grýluvelli í Hveragerði og Árborg komst yfir strax á 2. mínútu með marki frá Aroni Darra Auðunssyni, sem lánaður var frá Selfossi í Árborg í gær. Máni Snær Benediktsson jafnaði metin á 21. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Það var hart barist í seinni hálfleiknum sem var markalaus allt þar til í uppbótartímanum að draga fór til tíðinda. Przemyslaw, eða Semmi eins og hann er kallaður, kom inná sem varamaður fjórum mínútum fyrir leikslok og hann kláraði leikinn fyrir Hamar með glæsilegum mörkum utan af velli á þriðju og sjöttu mínútu uppbótartímans.

Lokatölur 3-1 og Hamar er í toppsæti deildarinnar með 6 stig en Árborg í 7. sæti með 3 stig.

Fyrri greinJJ pípulagnir bauð lægst í niðursetningu hreinsistöðvar
Næsta greinNýsköpun innviða