„Sem betur fer var varnarleikurinn frábær“

Selfoss vann öruggan sigur á Þrótti í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 23-17 í Vallaskóla. Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk.

„Þetta var mjög áhugavert í kvöld, mikil barátta og mínir menn svona svolítið stressaðir framan af. Við náðum ekki tökum á sóknarleiknum en sem betur fer var varnarleikurinn frábær allan leikinn. Við vorum mikið einum færri en á meðan við vorum sex á sex þá fengum við afar fá mörk á okkur og það vann þennan leik,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vitum að þetta mun taka nokkra leiki að slípast alveg 100% en það er bæting í vörninni hjá okkur frá leik til leiks. Það vantar þennan herslumun sóknarlega en við vorum kannski dálítið yfirspenntir og létum dómarana og allskonar hluti fara í taugarnar á okkur. Þrátt fyrir allt þá var þetta sannfærandi sigur,“ sagði Stefán ennfremur.

Fyrri hálfleikur var mjög kaflaskiptur í sókninni hjá Selfyssingum. Varnarleikurinn var hins vegar frábær, eins og tölurnar gefa til kynna, en staðan í hálfleik var 9-6. Selfoss hafði hins vegar örugg tök á leiknum í seinni hálfleik og að lokum skildu sex mörk liðin að.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk. Andri Már Sveinsson skoraði 6, Guðjón Ágústsson 3, Hergeir Grímsson og Teitur Örn Einarsson 2 og þeir Árni Geir Hilmarsson og Örn Þrastarson skoruðu sitt markið hvor.

Birkir Fannar Bragason varði 19/3 skot í marki Selfoss (54%) og Helgi Hlynsson 1 (50%).

Fyrri grein„Að spila úrslitaleik er bara drulluhollt fyrir þessa stráka“
Næsta grein„Strákarnir spiluðu eins og brjálæðingar“