Selfyssingum tókst ekki að skora

Þormar Elvarsson í leik með Selfyssingum síðasta sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu 0-1 þegar Kórdrengir komu í heimsókn á Selfossvöll í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Liðin skiptust á hálffærum í upphafi leiks en á 27. mínútu dró til tíðinda þegar Kórdrengir sóttu vítaspyrnu. Harður dómur og Selfyssingar ósáttir en Loic Ondo var ekkert að spá í því, heldur skoraði af punktinum, en Stefán Þór Ágústsson markvörður Selfoss var hársbreidd frá því að verja.

Miðjumoðið hélt áfram eftir markið og sóknarleikur Selfoss einkenndist helst af löngum, misheppnuðum sendingum fram völlinn. Hrvoje Tokic komst næst því að skora þegar hann setti boltann í stöngina úr erfiðu færi undir lok fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var tíðindalítill. Kórdrengjum gekk betur að sækja en færin voru af skornum skammti. Þegar leið á seinni hálfleikinn þyngdust sóknir Selfyssinga og síðasta korterið sóttu þeir stíft. Eina uppskeran var vítaspyrna á 82. mínútu en Daði Freyr Arnarson, markvörður Kórdrengja, varði frá Gary Martin. Áfram héldu Selfyssingar að sækja en vörn Kórdrengja hafði ekki sungið sitt síðasta og hélt út til leiksloka.

Þrátt fyrir tapið sitja Selfyssingar áfram í 6. sætinu með 25 stig en Kórdrengir lyftu sér upp í það 8. með 24 stig.

Fyrri greinLangþráð gleðistund að Kvoslæk
Næsta greinKFR spilar í 5. deild að ári