Selfyssingum spáð 5. sætinu

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í 1. deild karla í knattspyrnu spá því að Selfyssingar verði í 5. sæti í deildinni í sumar.

Selfyssingar féllu úr Pepsi-deildinni í fyrra eftir eins árs dvöl þar. Leikmannahópur Selfyssinga hefur gjörbreyst eftir fallið og nýr þjálfari, Gunnar Guðmundsson, er kominn í brúnna.

Fotbolti.net fékk alla fyrirliða og þjálfara liðanna í 1. deildinni til að spá fyrir um sumarið og eru Selfyssingar í 5. sæti með 149 stig. Gunnar þjálfari segir spána eðlilega.

,,Þetta kemur alls ekki á óvart. Okkur er jafnvel spáð ofar en ég reiknaði með. Þó að liðið hafi komið niður úr úrvalsdeild þá eru það miklar breytingar á hópnum að ég tel að þetta sé eðlilegt,” segir Gunnar í samtali við fotbolti.net. ,,Við erum að búa til nýjan hóp og erum að byggja undir nýtt lið. Markmið okkar er að sjálfsögðu að berjast í efri hlutanum og vonandi gengur það eftir.”

Keppni í 1. deildinni hefst á fimmtudag en þá taka Selfyssingar á móti KA.

Fyrri greinKerru stolið á Selfossi
Næsta greinDrumbabót eyddist í hamfarahlaupi árið 822