Selfyssingarnir byrja vel á HM

Bjarki Már og Ómar Ingi hæstánægðir. Mynd úr safni. Ljósmynd/HSÍ

Selfyssingarnir Bjarki Már Elísson og Ómar Ingi Magnússon voru bestu menn Íslands í glæsilegum sigri á Portúgal á heimsmeistaramótinu í handbolta í Svíþjóð í kvöld.

Ísland byrjaði betur í leiknum og leiddi lengst af fyrri hálfleik en Portúgalir voru sterkari á lokakaflanum og staðan í leikhléi var 15-15. Í seinni hálfleik var Ísland skrefinu á undan en Portúgal jafnaði 24-24 þegar átta mínútur voru eftir. Þá stungu Íslendingarnir af og litu ekki til baka eftir það, lokatölur 30-26.

Bjarki Már var valinn maður leiksins en hann var markahæstur Íslendinga með 9/3 mörk. Ómar Ingi Magnússon var besti maður vallarins með 8,94 í einkunn hjá HBStatz, þar af með 8,99 í sóknareinkunn en hann skoraði sjö mörk í leiknum og sendi fimm stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson var einnig firnasterkur en Elvar skoraði 1 mark og var með 9,27 í varnareinkunn.

Ísland mætir næst Ungverjalandi á laugardaginn klukkan 19:30.

Fyrri greinHafsteinn íþróttamaður Hveragerðis 2022
Næsta greinKonan kallar mig ástríðu-hamfarakokk