Selfyssingar völtuðu yfir nýliðana

Guðmundur Hólmar bar höfuð og herðar yfir aðra á vellinum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu stórsigur á nýliðum Víkings í úrvalsdeild karla í handbolta, þegar liðin mættust í Set-höllinni á Selfossi í kvöld, 32-19.

Selfoss hafði góð tök á leiknum allan tímann og leiddi í leikhléi, 12-9. Í seinni hálfleiknum brustu hins vegar allar flóðgáttir, Selfyssingar fóru á kostum í sókninni þar sem Guðmundur Hólmar Helgason fór mikinn og varnarleikurinn var sömuleiðis góður með Hergeir Grímsson í essinu sínu. Þeir tveir voru bestu leikmenn Selfoss í kvöld, ásamt Sölva Ólafssyni sem var öruggur í markinu.

Guðmundur Hólmar var markahæstur Selfyssinga með 10/2 mörk, Hergeir skoraði 7, Richard Sæþór Sigurðsson og Alexander Egan 3, Árni Steinn Steinþórsson og Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Karolis Stropus, Elvar Elí Hallgrímsson, Haukur Páll Hallgrímsson, Ragnar Jóhannsson og Sölvi Ólafsson skoruðu allir 1 mark.

Sölvi varði 14 skot í marki Selfoss og var með 46% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 1 skot og var með 33% markvörslu.

Selfyssingar eru áfram í 8. sæti deildarinnar, nú með 6 stig en Víkingar eru í botnsætinu og hafa ekki unnið deildarleik í vetur.

Fyrri greinJafnt í toppslagnum
Næsta greinBílabingó á Borg um næstu helgi