Selfyssingar unnu tvo Íslandsmeistaratitla

Selfyssingar urðu í gær Íslandsmeistarar í handbolta í 3. flokki karla og í 4. flokki kvenna-B. Úrslitaleikir í yngri flokkunum voru leiknir í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði.

Leikurinn hjá 3. flokki karla gegn Valsmönnum var spennandi lengst um og jafn framan af. Staðan var 14-13 í hálfleik en Selfoss hafði betur undir lokin og landaði að lokum öruggum sigri, 31-25.

Maður leiksins var valinn Gísli Axelsson leikmaður Selfoss en hann skoraði 7 mörk í leiknum ásamt því að leiða varnarleik liðsins.

B-lið 4. flokks kvenna mætti Fylki í hörkuspennandi leik og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokamínútunni. Staðan í hálfleik var 7-5, Selfoss í vil en lokatölur urðu 12-11. Maður leiksins var valin Karen Magnúsdóttir, leikmaður Selfoss.

Þriðja Selfossliðið sem lék til úrslita var A-lið 4. flokks, sem mætti Fram í úrslitaleik. Framarar unnu nokkuð öruggan sigur, 24-17 en staðan var 11-7 í hálfleik. Framstúlkur voru yfir allan leikinn og var sigur þeirra aldrei í hættu.

Yngri flokkar Selfoss náðu frábærum árangri í vetur en auk þessara þriggja liða átti Selfoss lið í 8-liða úrslitum í öllum flokkum ásamt því að 6. flokkur karla varð Íslandsmeistari og 6. flokkur kvenna náði 2. sæti á Íslandsmótinu.

Fjórði og annar flokkur karla misstu naumlega af sæti í úrslitum en báðir þessir flokkar léku til úrslita í bikarkeppninni, þar sem 2. flokkur vann eftirminnilegan sigur.

Fyrri greinSlökkvilið kallað að Hellisheiðarvirkjun
Næsta greinHjólreiðamaður slasaðist í Reykjadal