Selfyssingar unnu allar greinar á héraðsmótinu

Verðlaunahafar í langstökki kvenna, f.v. Hanna Dóra, Sesselja Anna og Esja Sigríður. Ljósmynd/HSK

Héraðsmót HSK í frjálsíþróttum innanhúss var haldið í fyrsta sinn í Selfosshöllinni á dögunum. Um 40 keppendur frá sjö félögum tóku þátt í mótinu, en keppt var í fimm greinum í bæði karla- og kvennaflokki.

Keppendur Umf. Selfoss unnu allar greinar á mótinu og höfðu mikla yfirburði í stigakeppni mótsins, en félagið hlaut 140 stig, lið Garps/Heklu varð í öðru sæti með 22,5 stig og Dímon í því þriðja með átta stig. Sigursælustu keppendur mótsins voru þau Sesselja Anna Óskarsdóttir og Örn Davíðsson, en þau unnu bæði tvær greinar á mótinu.

Sex héraðsmet í öldungaflokkum voru sett á mótinu. Örn Davíðsson setti met í kúluvarpi i flokki 30-34 ára, Bryndís Eva Óskarsdóttir setti met í 60 m hlaupi og 60 metra grindahlaupi í flokki 35-39 ára og Ólafur Guðmundsson setti þrjú met í hástökki og kúluvarpi í flokki 50-54 ára.

Ólafur Guðmundsson og Örn Davíðsson settu báðir HSK met á mótinu. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinVonast til að ná vélinni upp um miðjan apríl
Næsta greinTíu marka sigur Árborgar