Selfyssingar tvöfaldir Íslandsmeistarar

Blandað lið Selfoss krækti í tvo Íslandsmeistaratitla þegar keppt var á einstökum áhöldum á Íslandsmótinu í hópfimleikum í dag. Selfyssingar sigruðu glæsilega á dýnu og í gólfæfingum.

Selfoss sigraði á dýnu með 15,450 stig, 0,450 stigum á undan A-liði Gerplu. Í gólfæfingum fengu Selfyssingar frábæra einkunn, 18,000, sem er þeirra langhæsta einkunn í vetur. Þau toppuðu sig á öllum áhöldum og skiluðu hæsta samanlagða skori vetrarins með samtals 49,550 stig. Með því unnu þau samanlagðan árangur á mótinu í dag.

Þetta er glæsilegur árangur hjá Selfyssingum og vert að halda því til haga að liðið er enn í unglingflokki og hélt fullorðinsliðum fyrir aftan sig á stigatöflunni. Þetta er í fyrsta sinn sem Selfyssingar eignast Íslandsmeistara í flokki fullorðinna í hópfimleikum.

Fimmtándi maðurinn, sem Selfyssingar eru þekktir fyrir, lét einnig til sín taka í stúkunni en stuðningsliðið var virkilega öflugt í dag.

Fyrri greinTvær milljónir í leiktæki
Næsta greinHandboltaveturinn búinn