Selfyssingar töpuðu fyrir lærisveinum Basta

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld. Ljósmynd/UMFS

Selfoss tapaði 24-29 gegn Fram í fyrsta leik sínum í Ragnarsmóti karla í handbolta í Iðu á Selfossi í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Selfyssinga undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar og Framarar voru sömuleiðis með nýjan þjálfara, gömlu Selfosskempuna Sebastian Alexandersson. 

Framarar leiddu allan leikinn og voru fljótlega komnir með fjögurra marka forystu. Fram leiddi 9-13 í hálfleik og Selfyssingar náðu sér ekki á strik í seinni hálfleik. Lokatölur 24-29.

Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfsson 9, Ísak Gústafsson 4, Einar Sverrisson 3, Hergeir Grímsson 3, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Arnór Logi Hákonarson 1, Guðjón Baldur Ómarsson 1, Daníel Karl Gunnarsson 1. Varin skot: Vilius Rasimas 18 (38%).

Mörk Fram: Matthías Daðason 5, Breki Dagsson 4, Kristinn Hrannar Elísberg 3, Þorgrímur Smári Ólafsson 3, Vilhelm Poulsen 3, Aron Óskarsson 3, Arnar S. Magnússon 2, Sigurður Þorsteinsson 1, Andri Rúnarsson 1. Varin skot: Lárus Ólafsson 11 (38%) og Valtýr Hákonarson 2 (16%).

Önnur úrslit á Ragnarsmótinu í kvöld voru þau að Afturelding vann Stjörnuna 27-22 í karlamótinu. Í gærkvöldi sigruðu Haukar Fjölni/Fylki 23-22 í kvennamótinu.

Hefð er fyrir því að meistaraflokkur karla vitji leiðis Ragnars Hjálmtýssonar í Selfosskirkjugarði fyrir fyrsta leik á Ragnarsmótinu.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Grímur Hergeirsson
Fyrri greinÖruggur sigur Hamarsmanna
Næsta greinHákon jafnaði Íslandsmetið í skeet