Selfyssingar töpuðu í Framhúsinu

Selfyssingar töpuðu með fjögurra marka mun þegar þeir mættu Fram í Olís-deild karla í handbolta í Framhúsinu í kvöld.

Þetta var fyrsti sigur Framara í deildinni en þeim var spáð botnsætinu í vetur.

Selfoss komst í 2-4 í upphafi leiks en Framarar svöruðu með 6-1 kafla og héldu forystunni eftir það. Staðan var 15-12 í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu betur í síðari hálfleik og munurinn var orðinn fimm mörk eftir tíu mínútna leik, 20-15. Selfoss minnkaði muninn í tvö mörk, en aftur náðu Framarar fimm marka forskoti þegar fimm mínútur voru eftir, 28-23.

Lokamínúturnar voru spennandi en Selfyssingar fóru illa með sóknir sínar og náðu ekki að minnka muninn nema niður í tvö mörk, 28-26. Framarar kláruðu sínar sóknir betur og unnu að lokum öruggan sigur, 31-27.

Selfyssingar hafa fjögur stig að loknum fjórum leikjum og eru í 5. sæti deildarinnar.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 7/1, Einar Sverrisson 4, Hergeir Grímsson 3, Guðni Ingvarsson 2 og þeir Andri Már Sveinsson, Alexander Egan og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoruðu allir 1 mark.

Helgi Hlynsson varði 9 skot í marki Selfoss og Grétar Ari Guðjónsson 2.

Fyrri greinNýjar Ölfusréttir vígðar
Næsta greinListi Samfylkingarinnar tilbúinn