Selfyssingar töpuðu á Ísafirði

Selfyssingar sitja í 10. sæti 1. deildar karla, fjórum stigum frá fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Selfoss tapaði fyrir BÍ/Bolungarvík á útivelli í dag.

Heimamenn voru mun líflegri í upphafi leiks og áttu meðal annars sláarskot á meðan Selfyssingar ógnuðu marki BÍ lítið. Á 26. mínútu fékk Svavar Berg Jóhannsson beint rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu og Selfyssingar því manni færri síðasta rúma klukkutímann.

Mark BÍ/Bolungarvíkur lá í loftinu þegar leið á fyrri hálfleikinn og Selfossvörnin lét loks undan á 44. mínútu þegar heimamenn skoruðu ódýrt mark uppúr hornspynu.

Seinni hálfleikur var rólegur framan af, heimamenn voru meira með boltann en eftir rúmar tuttugu mínútur af síðari hálfleik jafnaði Geir Kristinsson metin fyrir Selfoss eftir hornspyrnu. Guðmundur Friðriksson fékk þá boltann á fjærstöng og skallaði fyrir markið þar sem Geir kom aðvífandi og skallaði boltann inn.

Djúpmenn voru þó ekki lengi að komast yfir aftur og þeir áttu tvö dauðafæri áður en þeir skoruðu annað mark sitt á 70. mínútu uppúr aukaspyrnu. Eftir það sigldu heimamenn sigrinum nokkuð sanngjarnt í höfn og lokatölur urðu 2-1.

Selfoss hefur 22 stig í 10. sæti og er fjórum stigum á undan KV. Liðin mætast einmitt í næstu umferð og með sigri í þeim leik gætu Selfyssingar farið langt með að tryggja sér áframhaldandi veru í 1. deildinni.

Fyrri greinNagað birki á Almenningum
Næsta greinÆgir og Hamar töpuðu