Selfyssingar tilnefndir sem lið ársins

Íslandsmeistarar Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Samtök íþróttafréttamanna verðlauna árlega lið ársins og þjálfara ársins um leið og íþróttamaður ársins er útnefndur.

Nú hefur verið skýrt frá því hverjir eru í efstu sætum í kjörinu og þar eiga Selfyssingar sína fulltrúa.

Patrekur Jóhannesson, sem þjálfaði karlalið Selfoss í handbolta á síðasta vetri, er einn þriggja efstu í valinu á þjálfara ársins. Undir stjórn Patreks urðu Selfyssingar Íslandsmeistarar í fyrsta skipti. Alfreð Gíslason, handknattleiksþjálfari hjá Kiel og Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem þjálfaði karlalið Gróttu í knattspyrnu á liðnu sumri koma einnig til greina sem þjálfari ársins.

Karlalið Selfoss í handknattleik er svo tilnefnt sem lið ársins, ásamt kvennaliði Vals í handbolta og kvennliði Val í körfubolta.

Úrslitin í kjörinu verða tilkynnt að kvöldi laugardagsins 28. desember þegar SÍ og ÍSÍ halda sitt árlega verðlaunahóf.

Fyrri greinSumarhús eyðilagðist í eldsvoða
Næsta greinEinn handtekinn eftir eldsvoðann í Grímsnesinu