Selfyssingar sváfu á verðinum

Markaskorarinn Valdimar Jóhannsson lætur vaða að marki. Þessi bolti fór reyndar ekki í netið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Slök byrjun í seinni hálfleik varð til þess að Selfoss tapaði 1-4 gegn nágrönnum sínum úr ÍBV í 1. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af og bæði lið áttu ágætar sóknir en færin voru ekki mörg. Eftir hálftíma leik komust heimamenn yfir en Valdimar Jóhannsson skoraði þá laglegt mark eftir góðan undirbúning Þormars Elvarssonar og Gary Martin. Leikurinn var áfram í jafnvægi eftir markið og á lokamínútu fyrri hálfleiks náðu Eyjamenn að jafna eftir hornspyrnu.

Upphafið í seinni hálfleik var dapurt hjá Selfyssingum. Þeir sváfu á verðinum og fengu á sig tvö mörk á fyrstu fimm mínútunum. Þar með var leikurinn nánast úti en þó að Selfoss hafi verið mikið með boltann tókst þeim ekki að skapa næga hættu fram á við en hún kom helst úr föstum leikatriðum.

Leikurinn fjaraði út síðasta korterið en það voru gestirnir sem áttu síðasta orðið, einni mínútu fyrir leikslok, eftir snarpa sókn og lokatölur urðu 1-4.

Með sigrinum færðist ÍBV nær sæti í efstu deild en liðið er í 2. sæti með 41 stig. Selfyssingar eru hins vegar í 9. sæti með 21 stig.

Fyrri grein„Það er auðvelt að bjarga þessum greyjum“
Næsta greinJöfnunarmark í uppbótartíma á Grýluvelli