Selfyssingar stóðu sig vel

Keppendur taekwondodeildar Umf. Selfoss stóðu sig með miklum ágætum á Íslandsmótinu í Poomsae sem haldið var í Íþróttahúsinu í Hrafnagili í Eyjafirði um síðustu helgi.

Umf. Selfoss sendi tíu keppendur til leiks en keppt var í barnaflokkum, miniorflokkum og fullorðinsflokkum og áttu Selfyssingar fulltrúa í öllum flokkum. Einnig var keppt í para poomsae og hópa poomsae og þar áttu Selfyssingar líka fulltrúa í báðum hópum.

Það var einnig keppt í MuYE en það er keppni í sýningu og óvæntum uppákomum. Þar átti Selfoss líka fulltrúa sem stóðu sig frábærlega og lentu í 2. sæti. MuYE er 5 mínútna sýning fyrir hvert lið og má hópur hvers félags vera eins stór og hver vill. Sýningin má vera algjörlega frjáls svo lengi sem atriðið teljist vera fyrst og fremst Taekwondo. Einkunnir voru gefnar fyrir Taekwondo-tækni en ekki aðra þætti. Aðrir þættir geta þó hækkað einkunnina sem slíka ef vel tekst til.

Óhætt er að fullyrða að sýning Selfyssinga hafi slegið rækilega í gegn þar sem þemað var hernaðarþjálfun. Dómarar hlógu svo mikið að atriðinu að þeir gátu ekki gefið liðinu stig fyrr en eftir talsverðan tíma.

Í barnaflokknum urðu systkynin Dagný María og Davíð Arnar Pétursbörn í fyrsta og öðru sæti og er Dagný María því Íslandsmeistari í Poomsae í sínum aldursflokki. Við óskum henni til hamingju með titilinn og þeim báðum með árangurinn.

Í hópa Poomsae fullorðinna náðu Selfyssingarnir Hekla Þöll Stefánsdóttir , Ísak Máni Stefánsson og Guðrún H. Vilmundardóttir að komast í fimm hópa úrslit.

Í einstaklings Poomsae fullorðinna komust Guðrún H. Vilmundardóttir, Hekla Þöll Stefánsdóttir og Daníel Jens Pétursson í fimm manna úrslit og Ísak Máni Stefánsson komst í fimm manna úrslit í minior flokki.

Samhliða Íslandsmótinu voru æfingabúðir þar sem strangar þol- og þrekæfingar voru stundaðar og einnig var beltapróf og úrtökupróf fyrir tilvonandi svartbeltinga.

Í úrtökuprófi fyrir svartbeltinga,sem samanstendur af mjög ströngum þrek-og þolæfingum, áttu Selfyssingar tvo fulltrúa, þá Davíð Arnar Pétursson og Brynjólf Ingvarsson.

Þeir stóðust báðir kröfur TKÍ , sem gerðar eru til þeirra sem reyna sig við svart belti, Brynjólfur mun þreyta próf fyrir svart belti og Davíð Arnar mun þreyta próf fyrir Poombelti, sem er sambærilegt svörtu belti, en börnum er ekki heimilt að bera svart belti fyrr en þau eru komin á 16. aldursárið.

Þess má geta að Davíð Arnar er einn af þeim allra yngstu á landinu sem reynir sig fyrir Poombelti,en hann verður 12 ára 3. desember.

Próf fyrir svart belti fer fram í Reykjavík þann 17. desember nk.