Selfyssingar fóru stigalausir úr Skessunni

Guðmundur Tyrfingsson skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti FH í Skessuna í Hafnarfirði í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld.

Selfyssingar lentu undir mikilli pressu í upphafi leiks og Steven Lennon og Vuk Dimitrijevic skoruðu báðir fyrir FH á fyrstu átta mínútunum. Leikurinn róaðist eftir það og á 44. mínútu minnkaði Guðmundur Tyrfingsson muninn með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Oskari Wasilewski innan vítateigs.

FH-ingar voru sterkari í seinni hálfleik og Máni Austmann og Kjartan Henry Finnbogason komu FH í 4-1 og þannig stóðu leikar þegar korter var eftir. Selfyssingar áttu hins vegar síðasta orðið en Ívan Breki Sigurðsson minnkaði muninn í 4-2 úr skyndisókn í uppbótartímanum.

Selfoss á enn eftir að ná í stig í Lengjubikarnum og mætir næst Leikni á Jáverk-vellinum næstkomandi föstudag.

Fyrri greinÞórsarar völtuðu yfir Valsmenn
Næsta greinSpenna og sveiflur í Suðurlandsslagnum