Selfyssingar stigalausir eftir uppgjör botnliðanna

Tryggvi Sigurberg Traustason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Útlitið er orðið virkilega svart hjá karlaliði Selfoss í handbolta sem í kvöld tapaði 19-21 gegn Víkingi, í uppgjöri tveggja neðstu liðanna í Olísdeildinni.

Sveiflurnar voru miklar í leiknum, Selfoss leiddi framan af en Víkingur náði þriggja marka forystu þegar leið á fyrri hálfleikinn. Staðan var 10-11 í hálfleik. Eins og tölurnar benda til var sóknarleikurinn ekki vandaður og það breyttist ekki í seinni hálfleik.

Selfyssingar litu reyndar ágætlega út framan af seinni hálfleiknum og komust í 16-14 en á síðustu sextán mínútunum fór allt í skrúfuna og liðið skoraði aðeins þrjú mörk á þeim kafla.

Sveinn Andri Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 4, Hans Jörgen Ólafsson 3, Gunnar Kári Bragason 2 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson, Einar Sverrisson, Jason Dagur Þórisson og Hannes Höskuldsson skoruðu 1 mark hver. Vilius Rasimas varði 10 skot í marki Selfoss.

Eftir fimm umferðir eru Selfyssingar enn án stiga en Víkingar unnu sinn annan sigur í deildinni í kvöld og lyftu sér upp í 6. sætið. Maður leiksins var markvörður Víkinga, Sverrir Andrésson, sem varði 17/1 skot í leiknum.

Fyrri greinLána-lánleysi meirihlutans í Árborg
Næsta greinKeflavík marði kraftmikla Hamarsmenn