Selfyssingar sterkir í lokin

Kristijan Vladovic skoraði 20 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss eygir enn sæti í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta en í kvöld vann liðið 78-85 sigur á Skallagrími í Borgarnesi.

Heimamenn byrjuðu betur í leiknum en Selfoss skoraði aðeins 11 stig í 1. leikhluta. Dæmið snerist þó við í 2. leikhluta þar sem Selfyssingar léku mjög vel og þeir breyttu stöðunni úr 26-11 í 39-40 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn á 14-2 áhlaupi og lagði þar grunninn að sigrinum. Skallagrímur náði að minnka muninn í eitt stig í upphafi 4. leikhluta, 66-67, en Selfyssingar voru sterkir á lokakaflanum og hleyptu Borgnesingum ekki framúr.

Christian Cunningham var stigahæstur Selfyssinga með 21 stig, 17 fráköst, 4 varin skot og 4 stoðsendingar. Kristijan Vladovic skoraði 20 stig og stal 8 boltum, Arnór Bjarki Eyþórsson skoraði 16 stig, Maciek Klimaszewski 11 og Alexander Gager 10.

Selfoss hefur 14 stig í 6. sæti deildarinnar en á tvo leiki til góða á Álftanes sem er í 5. sætinu með 20 stig.

Fyrri greinFrístundastyrkir í Árborg lægri en á höfuðborgarsvæðinu
Næsta greinÖruggt hjá Íslandsmeisturunum