Selfyssingar sterkir í lokin

Ísak Gústafsson lék vel fyrir Selfoss í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar lyftu sér upp í 5. sæti Olísdeildar karla í handbolta með öruggum sigri á KA á Akureyri í dag.

Jafnt var á öllum tölum fyrstu tíu mínúturnar en þá náðu Selfyssingar undirtökunum og höfðu tveggja marka forskot lengst af fyrri hálfleiknum. Staðan var 16-18 í hálfleik.

Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik, skoraði fyrstu þrjú mörkin og voru þá komnir með fimm marka forskot sem entist þeim allan seinni hálfleikinn. Á síðustu tíu mínútunum gáfu þeir vínrauðu allt í botn og náðu níu marka forskoti, 25-34, en góður lokakafli KA kom ekki að sök og Selfoss sigraði örugglega, 29-35.

Ísak Gústafsson og Atli Ævar Ingólfsson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 5, Richard Sæþór Sigurðsson, Hannes Höskuldsson og Einar Sverrisson 3, Ragnar Jóhannsson og Sölvi Svavarsson 2 og þeir Tryggvi Sigurberg Traustason, Elvar Elí Hallgrímsson og Sverrir Pálsson skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn Þorsteinsson átti góðan leik í marki Selfoss, varði 10/1 skot og var með 44% markvörslu en Vilius Rasimas varði 5 skot og var með 24% markvörslu.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 5. sæti með 19 stig en KA er í 10. sæti með 11 stig.

Fyrri greinSætur sigur á Akureyri
Næsta greinUnnur og Lilja afgreiddu FH