Selfyssingar sterkari í seinni hálfleik

Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 7 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss vann góðan útisigur á Berserkjum í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 28-30.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, liðin skiptust á um að hafa forystuna en staðan var 14-15 í leikhléi, Selfyssingum í vil. Víkingar höfðu frumkvæðið framan af seinni hálfleiknum en þegar fimmtán mínútur voru eftir kom góður kafli hjá Selfyssingum, þar sem þeir sneru leiknum sér í vil. Selfoss náði fimm marka forskoti, 22-27, en Berserkir náðu að minnka muninn niður í eitt mark á lokamínútunni.

Guðjón Baldur Ómarsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Daníel Karl Gunnarsson skoraði 6, Ísak Gústafsson 5, Tryggvi Þórisson og Tryggvi Sigurberg Traustason 4, Haukur Páll Hallgrímsson 2 og þeir Vilhelm Freyr Steindórsson og Sigurður Snær Sigurjónsson skoruðu báðir 1 mark. Elvar Elí Hallgrímsson stóð vaktina vel í vörninni og var með 5 brotin fríköst.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 15 skot í marki Selfoss og var með 34% markvörslu.

Selfoss-U er nú í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en Berserkir eru í 10. sæti og hafa ekki enn unnið leik.

Fyrri greinSunnlensku liðin töpuðu öll
Næsta greinVilja Guðrúnu sem ráðherra