Selfoss lagði KA að velli í 2. umferð Ragnarsmótsins í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í gærkvöldi.
Þarna var um hörkuleik að ræða, Selfyssingar byrjuðu af krafti en eftir að Atli Ævar Ingólfsson fékk rautt spjald um miðjan fyrri hálfleikinn gengu KA menn á lagið og jöfnuðu leikinn. Staðan var 14-14 í hálfleik. Baráttan var mikil í seinni hálfleiknum en Selfyssingar voru sterkari síðustu tíu mínúturnar og skriðu þá framúr. Lokatölur urðu 33-27.
Ísak Gústafsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson og Einar Sverrisson skoruðu 4, Atli Ævar Ingólfsson og Sæþór Atlason 3, Elvar Elí Hallgrímsson, Hannes Höskuldsson, Tryggvi Sigurberg Traustason og Guðmundur Hólmar Helgason 2 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson og Jón Þórarinn Þorsteinsson skoruðu 1 mark hvor.
Í hinum leik kvöldsins sigraði Fram Hörð 27-26 og í fyrrakvöld vann ÍBV Fram 41-34.