Selfoss 2 tók á móti ÍH í 1. deild karla í handbolta í Set-höllinni Iðu í dag. Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og unnu að lokum öruggan sigur, 35-29.
Gestirnir náðu þriggja marka forskoti í upphafi leiks en Selfoss 2 jafnaði 6-6 þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar. Liðin skiptust á um að hafa frumkvæðið eftir það en jafnt var á flestum tölum og staðan var 16-16 í hálfleik.
Selfoss 2 byrjaði betur í seinni hálfleik og þeir voru komnir með fimm marka forskot eftir rúmar tíu mínútur, 25-20. Þeir vínrauðu litu ekki til baka eftir það og unnu á endanum öruggan sex marka sigur.
Dagur Rafn Gíslason var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Anton Breki Hjaltason skoraði 7, Hákon Garri Gestsson 6, Skarphéðinn Steinn Sveinsson 5, Bartosz Galeski 3, Aron Leo Guðmundsson 2 og þeir Bjarni Valur Bjarnason, Kristján E. Kristjánsson og markmaðurinn Ísak Kristinn Jónsson skoruðu allir 1 mark. Ísak varði 13 skot í marki Selfoss.
Selfoss 2 er í 4. sæti 1. deildarinnar með 6 stig en ÍH í 10. sæti með 2 stig.
