Selfyssingar stefna til Svíþjóðar

Fyrri hluti Íslandsmóts FSÍ í hópfimleikum fór fram í Iðu á Selfossi sl. laugardag. Sigurvegari mótsins var Gerpla en félagið hreppti sex Íslandsmeistaratitla samanlagt í kvenna og karlaflokki í úrvalsdeild.

Athygli vakti árangur kvennaliðs Selfoss í úrvalsflokki sem átti mjög góðan dag og veitti Gerplu harða keppni á dýnu með glæsilegum æfingum sem gaf liðinu 15,9 í einkunn, aðeins 0,20 stigum lægri en lið Gerplu. Gerpla var í fyrsta sæti með heildareinkunn 47,40 stig, Selfoss tryggði sér 2. sætið með 44,30 stig en í 3. sæti var Stjarnan með 42,83 stig.

Selfoss og Stjarnan etja nú harða keppni um að komast á Evrópumót seniora sem fram fer í Svíþjóð næstkomandi haust. Úrslitaviðureignin verður á síðari hluta Íslandsmótsins sem haldin verður í Garðabæ föstudaginn 23. apríl nk.

Selfoss átti eitt lið í úrslitum á Íslandsmótinu í landsreglum 1. deildar, mixlið Selfoss, sem er skipað stelpum og strákum á aldrinum 11 til 12 ára. Liðið uppskar Íslandsmeistaratitil enda eina blandaða liðið og færast þau upp í 2. flokk í Teamgym að ári. Þetta er ungt og mjög efnilegt lið og með fáum blönduðum liðum á landinu.

Troðfullt var út úr dyrum eftir hádegi í Iðu þegar keppt var í úrvalsdeild. Við sameiginlega verðlaunaafhendingu í mótslok voru 180 keppendur á gólfinu og stúkan þéttsetin.