Selfyssingar sprækir á Akureyri

Gary Martin skoraði og lagði upp. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu góðan útisigur á Þór Akureyri í dag í 1. deild karla í knattspyrnu. Lokatölur á Þórsvellinum urðu 1-2.

Selfoss var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og á 21. mínútu kom Valdimar Jóhannsson þeim yfir þegar hann fékk góða sendingu innfyrir vörnina frá Gary Martin. Selfoss átti góðar sóknir í kjölfarið og á 42. mínútu kom svo annað markið þegar Selfyssingar spiluðu sig snyrtilega í gegnum Þórsvörnina og Gary Martin batt endahnútinn á sóknina.

Þórsarar minnkuðu muninn með glæsilegu aukaspyrnumarki á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan var 1-2 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var markalaus en Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum og fögnuðu góðum sigri.

Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 24 stig og mætir Fjölni á heimavelli í lokaumferðinni. Í dag varð það líka ljóst að ÍBV fylgir Fram upp í úrvalsdeildina og Þróttur Reykjavík fellur niður í 2. deild ásamt Víkingi Ó.

Fyrri greinÆgismenn misstigu sig á heimavelli
Næsta greinHamar í 4. sæti