Selfyssingar sópuðu að sér verðlaunum

Keppendur frá Ungmennafélagi Selfoss náðu frábærum árangri á Íslandsmótinu í fjölþraut í hópfimleikum sem fram fór í Garðabæ um helgina.

Selfoss stefndi að sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í sögunni með titli í flokki blandaðra liða og það gekk eftir. Strax á fyrsta áhaldi, gólfi, gekk Selfyssingum gríðarlega vel, með frábæra einkunn, 19,683.

Selfoss fékk svo 17,550 stig á trampólíni á meðan Stjarnan fékk 15.200 stig og forysta Selfoss því orðin 3,250 stig og kraftaverk þurfti til að Stjarnan hirti af þeim titilinn. Það kraftaverk kom ekki, Selfoss fékk 15,450 á dýnu og tryggði sér því fysta titilinn í sögu félagsins í fjölþraut.

Selfoss fékk samtals 52,683 stig en Stjarnan varð í 2. sæti með 48,233. Ármenningar urðu í 3. sæti, nokkuð á eftir efstu tveimur liðunum.

Í kvennaflokki varð lið Selfoss í 5. sæti með 18,683 á gólfi, 12,450 á dýnu og 12,700 á trampólíni. Samtals var liðið með 43,833 stig, 3,000 stigum á eftir B-liði Gerplu sem varð í 4. sæti en A-lið Stjörnunnar sigraði með 56,116 stig og rauf þar samfellda sigurgöngu Gerplu síðustu ár.

Á laugardeginum var keppt til úrslita á einstökum áhöldum. Þar sigraði blandað lið Selfoss á dýnu með 16,050 stig og á trampólíni með 17,200 stig en Stjarnan sigraði á gólfi með 18,500 stig, 0,250 stigum á undan Selfyssingum.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá fékk blandað lið Selfoss hlýjar móttökur þegar það sneri aftur austur fyrir fjall með bikarasafnið.

Fyrri greinHrikaleg fjallasýn á Eyrarbakka
Næsta greinAllt stopp vegna skipulagsferlis