Selfyssingar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Fylki í botnbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Heimamenn léku á als oddi í fyrri hálfleiknum og skoruðu þrjú góð mörk. Aron Lucas Vokes kom þeim yfir á 18. mínútu og þremur mínútum síðar slapp Aron Fannar Birgisson innfyrir Fylkisvörnina og skoraði snyrtilegt mark. Frosti Brynjólfsson var svo ískaldur þegar hann fór illa með vörn Fylkis og skoraði þriðja markið á 33. mínútu.
Fylkismenn voru ekki dauðir úr öllum æðum og þeir áttu tvö góð færi undir lok fyrri hálfleiks en tókst ekki að skora og staðan var 3-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri. Fylkismenn voru meira með boltann en það var fátt um færi og Robert Blakala greip inní þegar á þurfti að halda í marki Selfoss. Hann kom þó engum vörnum við á 73. mínútu þegar Guðmundur Tyrfingsson skallaði boltann í mark sinna gömlu félaga og breytti stöðunni í 3-1 – og þær urðu lokatölur leiksins.
Reynir Freyr Sveinsson var valinn maður leiksins hjá Selfyssingum með miklum yfirburðum. Hann var hamrammur í vörn Selfossliðsins í kvöld og hélt uppi stemningunni bæði innan vallar og utan. Það var frábær mæting á völlinn í kvöld enda Kótelettuhelgi og blíða og yfir 600 manns á vellinum.
Sigurinn í kvöld lyftir Selfyssingum upp úr fallsæti, liðið er nú í 10. sæti með 10 stig, eins og Fylkir en Árbæingar hafa mun betra markahlutfall.

