Selfyssingar sigursælir á HSK mótunum í frjálsum

Aldursflokkamót HSK 11-14 ára, unglingamót HSK 15-17 ára og héraðsmót fullorðinna í frjálsum íþróttum innanhúss fóru fram í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika í Hafnarfirði þann 14. janúar síðastliðinn.

Aldursflokkamótið
Alls kepptu 109 keppendur frá átta félögum á aldursflokkamótinu og flestir þeirra mættu og kepptu þrátt fyrir slæmt veður um morguninn.

Karolína Helga Jóhannsdóttir Selfossi vann allar fimm keppnisgreinarnar í 13 ára flokki. Kristófer Árni Jónsson úr Heklu vann fjórar greinar í 11 ára flokki og varð annar í einni og þá vann Eydís Arna Birgisdóttir Selfossi fjórar greinar í 11 ára flokki.

Selfyssingar höfðu mikla yfirburði í stigakeppni aldursflokkamótsins og hlutir 405,5 stig. Hrunamenn urð í öðru sæti með 185 stig og Þjótandi í þriðja með 129 stig.

Unglingamótið
Á unglingamótinu tóku 30 keppendur frá níu félögum þátt. Eitt HSK met var sett á mótinu. Bríet Bragadóttir Selfossi bætti sex ára gamalt met Evu Lindar Elíasdóttur í 60 m grindahlaupi í flokki 16 – 17 ára. Bríet hljóp á 9,25 sek., en gamla metið var 9,29.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Heklu var sigursælasti keppandi unglingamótsins, en hann vann fimm greinar í 15 ára flokki og hlaut auk þess eitt brons.

Selfyssingar unnu stigakeppnina með 174 stig, Þjótandi varð í öðru með 72 stig og Hekla varð í þriðja með 34 stig.

Héraðsmótið
Alls voru 28 keppendur skráðir til leiks á héraðsmótið og tæpur helmingur þeirra komu frá FH, sem tóku þátt sem gestir.

Ýmir Atlason Selfossi og Stefán Narfi Bjarnason úr Þjótanda unnu báðir tvær greinar á héraðsmótinu. Selfyssingar unnu stigakeppni mótsins með 77 stig, Þjótandi varð í öðru með 27 stig og Þór varð í þriðja með 26 stig.

Fyrri greinAlvarleg líkamsárás á Litla-Hrauni
Næsta greinGuðmundur skoraði sigurmarkið gegn Rússum