Selfyssingar sigruðu örugglega

Héraðsmót HSK fullorðinna í frjálsum íþróttum fór fram 21.-22. júní sl. á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi. Umf. Selfoss sigraði í heildarstigakeppninni.

Keppendur voru um 30 færri en í fyrra og komu frá 9 félögum. Er þetta ekki góð tíðindi og verðum við að gefa í varðandi þátttökufjölda á næsta ári.

Keppt var í fimmtán greinum hjá körlum og konum og mátti hver þátttakandi keppa í sex greinum auk boðhlaups til stiga. Stigahæstu einstaklingar voru Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, með fullt hús stiga eða 36. Hún sigraði allar sínar greinar sem voru þrístökk, langstökk, hástökk, 100 m grindahlaup, 400 m og 200 m hlaup.

Stigahæsti karlinn var Ólafur Guðmundsson, sem keppir fyrir Laugdæli. Hann vann fjórar greinar og varð annar í tveimur. Ólafur sigraði í sleggjukasti, kringlukasti, kúluvarpi og 110 m grindahlaupi og varð annar í 100 m hlaupi og spjótkasti.

Besta afrek kvenna vann Fjóla Signý en hún fékk 886 stig fyrir 100 m grindahlaup á 15,32 sek.

Besta afrek karla vann Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð, en hann fékk 830 stig fyrir 800 m hlaup á 1:57,48 mín.

Umf. Selfoss sigraði svo örugglega í heildarstigakeppninni á milli félaganna með 179 stig. Lið Laugdæla varð í 2. sæti með 135,5 stig. Sameinað lið Vöku, Samhygðar og Baldurs undir merkjum Þjótanda varð svo í 3. sæti með 68 stig.

Fyrri greinÖlvaður maður hleypti af skotum á Stokkseyri
Næsta grein24 sækja um starf fræðslustjóra