Selfyssingar sigruðu á USA Cup

Knattspyrnulið 3. flokks kvenna hjá Umf. Selfoss náði frábærum árangri á stórmótinu USA Cup sem fram fór í Minneapolis og lauk um síðustu helgi.

Stelpurnar stóðu sig mjög vel og lentu í 2. sæti í sínum riðli í flokki U16 ára liða. Selfoss vann þrjá leiki og tapaði einum í riðlinum og komst þannig í 8-liða úrslit. Þar lögðu þær amerískt lið 6-1 og komust auðveldlega í undanúrslitin.

Selfossliðið var frábært í undanúrslitunum þar sem þær lögðu heimastúlkur úr liði fylkismeistara Minnesota, 1-0.

Í úrslitaleiknum mætti Selfoss liði frá Kanada en það var sama lið og sigraði Selfoss í riðlakeppninni. Úrslitaleikurinn var æsispennandi en Kanadaliðið komst í 2-0. Selfoss náði að jafna í uppbótartíma og knýja fram framlengingu en úrslitin réðust ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni þar sem Selfoss hafði betur.

Hópurinn kom heim í morgun og segir Jóhann Bjarnason, þjálfari liðsins, að ferðin hafi verið geysivel heppnuð. „Þetta var algjörlega æðislegt. Þetta er mjög stórt mót og langstærstur hluti liðanna er frá Norður- og Suður-Ameríku auk nokkurra liða frá Evrópu. Allt skipulag og umgjörðin á þessu móti er til fyrirmyndar og stelpurnar stóðu sig vel innan vallar sem utan,“ segir Jóhann en hópurinn frá Selfossi taldi 42 með foreldrum og fylgdarliði en leikmennirnir voru sautján talsins.

Fyrri greinIngólfur aftur í Selfoss
Næsta greinEnn tapar Árborg