Selfyssingar sigruðu í stigakeppninni

Ágústa Tryggvadóttir, Selfossi og Ólafur Guðmundsson, Laugdælum, voru stigahæstur keppendurnir á Héraðsmóti HSK í frjálsum íþróttum sem lauk á Selfossi í gærkvöldi.

Ágústa sigraði í kúluvarpi, hástökki, langstökki og þrístökki kvenna en Ólafur sigraði í 110 m grindahlaupi, þrístökki, kringlukasti og kúluvarpi karla.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Selfossi, vann besta afrek kvenna á mótinu þegar hún hljóp 100 m hlaup á 13,29 sekúndum. Sólveig Helga sigraði einnig í 200 og 400 m hlaupum og sömu sögu má segja um Harald Einarsson, Vöku, sem sigraði átakalítið í 100 m, 200 m og 400 m hlaupum.

Besta afrek karla vann handknattleiksmaðurinn knái, Guðmundur Árni Ólafsson, sem stökk til sigurs í langstökki, 6,23 m. Eins og aðrir sem nefndir eru hér á nafn verður Guðmundur, sem er atvinnumaður í handbolta í Danmörku, í Landsmótsliði HSK á Landsmóti UMFÍ sem hefst á Selfossi þann 4. júlí næstkomandi.

Anna Pálsdóttir, Selfossi, var líka öflug í stigasöfnuninni og sigraði bæði í kringlukasti og spjótkasti kvenna.

Á mótið vantaði landsliðsfólk HSK en Fjóla Signý Hannesdóttir og Kristinn Þór Kristinsson keppa á Evrópubikar landsliða í Slóvakíu nú um helgina og Fjóla Signý síðan á Evrópubikar í fjölþrautum á Madeira um aðra helgi. Þá tók hástökkvarinn sterki Hreinn Heiðar Jóhannsson ekki þátt í Héraðsmótinu vegna veikinda og það sama var uppi á teningnum hjá Bjarna Má Ólafssyni, Vöku, sem keppti ekki í sinni aðalgrein, þrístökkinu, en Bjarni sigraði hins vegar í spjótkasti karla.

Stigahæsta félagið á Héraðsmótinu var Ungmennafélag Selfoss með 174 stig, Þór Þorlákshöfn varð í 2. sæti með 105 stig og Laugdælir í 3. sæti með 67 stig.

Fyrri greinLeigja Tryggvaskála til átta ára
Næsta greinHelgi og Sigurður Már í HK