Selfyssingar semja við Sandnes

Knattspyrnudeild Umf. Selfoss hefur gert tveggja ára samning við norska miðjumanninn Robert Sandnes.

Sandnes lenti á Íslandi í dag en hann er 22 ára gamall örvfættur miðjumaður sem getur einnig leikið stöðu vinstri bakvarðar. Hann kemur til Selfoss frá norska úrvalsdeildarliðinu Álasundi.

Sandnes kom á reynslu til Selfyssinga í janúar og lék m.a. með liðinu í æfingaleik gegn ÍBV þar sem hann stóð sig geysilega vel og skoraði m.a. frábært mark.

Af öðrum leikmannafréttum úr herbúðum Selfoss má nefna að í desember höfðu Selfyssingar gert munnlegt samkomulag við Peter Klančar um að leika með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar. Breyttar aðstæður hjá leikmanninum hafa hins vegar orðið til þess að hann kemur ekki til landsins.

Fyrri greinFíkniefnasali handtekinn
Næsta greinLjós- og glitlaus með barn á hjóli