Selfyssingar sáu stjörnur

Kvennalið Selfoss fékk stóran skell þegar liðið mætti toppliði Stjörnunnar á útivelli í Pepsi-deildinni í kvöld. Stjarnan sigraði 8-0.

Staðan var orðin 2-0 eftir sextán mínútna leik og lítið gekk hjá Selfyssingum. Stjarnan bætti við þremur mörkum fyrir hálfleik og staðan var 5-0 í leikhléinu.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik og Stjörnukonur unnu að lokum með átta marka mun.

Þegar fyrri umferð deildarinnar er lokið er Selfoss í fallsæti í 9. sæti með 7 stig og markatöluna 15-44. Liðið hefur fengið langflest mörk á sig af liðunum í deildinni en keppinautarnir í fallbaráttunni, Afturelding og KR hafa fengið á sig 20 mörk og FH hefur fengið á sig 21 mark. Markahlutfall Selfoss er lang lakast af þessum liðum og það gæti reynst dýrt að lokum.