Selfyssingar sáu ekki til sólar

Guðmundur Tyrfingsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss fékk Aftureldingu í heimsókn á JÁVERK-völlinn í kvöld í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Afturelding vann 1-4 sigur og liðin höfðu því sætaskipti og eru Selfyssingar komnir niður í 6. sætið í deildinni.

Lið Selfoss gerði Mosfellingum auðvelt fyrir í fyrri hálfleik og kom Marciano Aziz boltanum strax í netið á 9. mínútu með skoti fyrir utan teig. Selfyssingar fengu engin færi í fyrri hálfleik og komust varla yfir miðju á löngum köflum, auk þess sem þeir réðu ekkert við Belgann sem setti boltann aftur í netið á 21. mínútu með keimlíku skoti og því fyrra.

Staðan var 0-2 í hálfleik og Afturelding kom sterk inn í seinni hálfleikinn en Javier Ontiveros skoraði strax á 3. mínútu eftir mistök í vörn Selfoss. Heimamenn pressuðu harðar að gestunum í kjölfarið og náði Valdimar Jóhannsson að pota boltanum í netið eftir hornspyrnu á 54. mínútu.

Selfyssingar reyndu að finna annað mark en það tókst ekki og í uppbótartímanum mætti varamaðurinn Sævar Atli Hugason inn í vítateig Selfoss og skoraði fjórða mark Aftureldingar.

Með sigrinum fór Afturelding upp í 5. sætið með 22 stig en Selfoss í því sjötta með 21 stig.

-dng.

Fyrri greinÓvíst hvort bráðabirgðabrúin standi af sér vatnsflauminn
Næsta greinHamarsmenn styrkja leikmannahópinn