Selfyssingar réðu ekki við Val

Selfyssingar töpuðu 4-1 þegar liðið mætti Val í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu að Hlíðarenda í kvöld.

Valskonur voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik en Selfyssingum gekk illa að láta boltann ganga og áttu fáar álitlegar sóknir.

Valur fékk fyrsta færi leiksins á 12. mínútu þegar Nicole McClure, markvörður Selfoss, varði skot úr teignum eftir hornspyrnu. Fimm mínútum síðar fengu Valskonur dauðafæri þegar Selfoss missti boltann aftarlega á vellinum en skotið var framhjá markinu.

Á 23. mínútu komst Valur yfir þegar vörn Selfoss opnaðist og McClure kom engum vörnum við. Selfoss jafnaði hins vegar metin á 32. mínútu þegar Guðmunda Óladóttir tók einn af sínum alkunnu sprettum upp vinstri kantinn þar sem hún lét vaða að marki fyrir utan teig og í netið.

Selfyssingar fögnuðu vel og virtust ætla að halda leiknum í 1-1 fram að hálfleik en á 44. mínútu slapp sóknarmaður Vals í gegnum flata vörn Selfoss og renndi boltanum fram hjá McClure. Staðan var því 2-1 í hálfleik.

Selfyssingar byrjuðu betur í seinni hálfleik og áttu dauðafæri strax á 47. mínútu eftir hornspyrnu. Eva Lind Elíasdóttir renndi boltanum á Guðmundu sem var alveg upp við markið í þröngri stöðu og boltinn fór í stöngina. Fimm mínútum síðar fengu Selfyssingar enn betra færi þegar Valskonur gleymdu sér í vörninni og Guðmunda var ein með boltann á auðum sjó í teignum en markvörður Vals varði vel skot Guðmundu.

Mínútu síðar stakk Valskonan rangæska Dagný Brynjarsdóttir boltanum innfyrir og hljóp hann svo uppi aftur en McClure varði mjög vel í horn.

Selfyssingum gekk betur að halda boltanum innan sinna raða í seinni hálfleik og sýndu oft ágæt tilþrif þó að þær hafi ógnað marki Vals lítið. Þær fengu þó gott færi á 69. mínútu þegar Guðmunda sólaði sig glæsilega inn á vítateig en Valskona komst fyrir skot hennar. Boltinn barst á Katrínu Ýr Friðgeirsdóttur sem skallaði að marki en markvörður Vals átti ekki í vandræðum með að handsama boltann.

Mínútu síðar sluppu Valskonur innfyrir en McClure bjargaði með úthlaupi og hreinsaði frá.

Síðustu tíu mínúturnar sótti Valsliðið í sig veðrið og áttu þær tvær hættulegar sóknir í röð á 83. og 84. mínútu. Keimlíkar sendingar innfyrir Selfossvörnina, í fyrra skiptið varði McClure frábærlega en í þeirri síðari kom hún engum vörnum við og boltinn hafnaði í netinu, 3-1.

Á 88. mínútu fengu Selfyssingar hornspyrnu en ekkert varð úr henni. Leikmaður Vals náði boltanum og léku upp allan völlinn og inn í vítateig hinumegin, framhjá McClure en á einhvern ótrúlegan hátt náði Þóra Margrét Ólafsdóttir að renna sér fyrir knöttinn og bjarga því sem bjargað varð.

Síðasta mark leiksins kom úr síðustu sókn Vals á 93. mínútu þegar boltanum var stungið innfyrir, leikmaður Vals lék á McClure og skoraði af öryggi. Mínútu áður hafði Valur átt góða sókn þar sem boltanum var mokað yfir Selfossmarkið af markteig.

Lokatölur leiksins reyndust því vera 4-1 en næsta verkefni Selfoss í deildinni er gegn FH á heimavelli á þriðjudagskvöld.