Selfyssingar réðu ekki við tíu Eyjamenn

Ófarir Selfyssinga halda áfram í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en liðið tapaði í kvöld, 1-0 fyrir ÍBV á Hásteinsvelli. Eyjamenn voru manni færri í 89 mínútur og 20 sekúndur.

Eyjamenn misstu mann af velli með rautt spjald eftir 40 sekúndna leik þegar aftasti varnarmaður braut á Viðari Kjartanssyni sem var að sleppa innfyrir. Brotið átti sér stað rétt við vítateig Eyjamanna og Selfyssingar fengu aukaspyrnu sem Jón Daði Böðvarsson afgreiddi beint á markmann ÍBV.

Þrátt fyrir að vera manni færri voru það Eyjamenn áttu færin næstu mínúturnar og þeir komust svo yfir á 24. mínútu eftir vel útfærða hornspyrnu. Eyjamenn höfðu góð tök á leiknum í fyrri hálfleik og manni fleiri náðu Selfyssingar ekki að skapa sér færi.

Staðan var 1-0 í hálfleik og fyrstu mínútur síðari hálfleiks voru rólegar. Jón Daði átti skot að marki á 54. mínútu eftir ágæta sókn Selfyssinga sem hresstust nokkuð þegar leið á leikinn, enda lágu Eyjamenn aftarlega og freistuðu þess að sækja hratt.

Þannig leið leikurinn og Eyjamenn áttu áfram hættulegri sóknir en Selfyssingum var fyrirmunað að finna glufur á þéttri vörn Eyjaliðsins.

Næsti leikur Selfyssinga er gegn Val á heimavelli á sunnudagskvöld. Valsmenn töpuðu 0-2 gegn Fram í kvöld og því hafa Framarar nú fjögurra stiga forskot á Selfyssinga í 10. sæti.