Selfyssingar ósáttir við rauða spjaldið á Sandnes

Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, hefur beðið KSÍ um skýrslu Vilhjálms Alvars Þórarinssonar dómara eftir leik Fylkis og Selfoss í Pepsi-deild karla í gærkvöldi.

Selfyssingar fengu tvö rauð spjöld í leiknum og eru mjög ósáttir við það fyrra sem Robert Sandnes fékk. Selfoss tapaði 2-0 en með sigri hefði liðið komist upp úr fallsæti.

„Við munum auðvitað gera einhverjar athugasemdir við þetta en samkvæmt starfsmönnum KSÍ er ekkert hægt að gera. Maðurinn fer í bann. Við lentum í því um daginn að áminning var ranglega skráð á Stefán Ragnar og það var leiðrétt. Af hverju má ekki leiðrétta það ef dómarinn viðurkennir að honum hafi yfirsést?“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, í viðtali í Boltanum á X-inu í dag.

„Það er fundur aganefndar á morgun en þeir geta ekkert gert. Mistök dómara munu standa.“

Í viðtölum eftir leikinn í gær sagði Logi að erfitt væri að ræða við Vilhjálm Alvar dómara.

„Dómarastéttin þarf að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að viðurkenna mistök sín. Ég held að það sé liður í því að hækka standardinn á getu manna í þessari stétt ef þeir eru tilbúnir að viðurkenna þetta. Það er ekki við því að heilsa í tilfelli Vilhjálms Alvars,“ sagði Logi.

„Það er bara hótað aðvörunum, áminningum og bönnum í stað þess að hann viðurkenni að hann hafi gert mistök. Með því að viðurkenna mistökin myndi hann slá vopnin úr höndum okkar sem eru að gagnrýna.“

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=133494#ixzz26kdaMO1m

Fyrri greinGóður dagur í Hellisskógi
Næsta greinNemendur vinna við gæslu og í mötuneyti