Selfyssingar Norden Cup meistarar

Selfyssingar fagna sigri á mótinu ásamt þjálfurum sínum, Árna Ísleifssyni og Aroni Darra Auðunssyni. Ljósmynd/UMFS

Selfossstrákar fæddir árið 2011 tryggðu sér í dag sigur á Norden Cup mótinu í handbolta sem lauk í Gautaborg í Svíþjóð í dag. Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og fóru ósigraðir í gegnum mótið.

Selfoss vann alla þrjá leikina í riðlakeppninni og spiluðu svo gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum, þar sem þeir unnu öruggan sigur, 22-14. Í undanúrslitum keyrðu þeir sænska liðið Alingsås og sigruðu 34-22. Þar með var ljóst að Selfoss myndi mæta sterku liði Kungälvs HK frá Vestur-Gautlandi í Svíþjóð.

Selfyssingar fóru vel af stað og leiddu í hálfleik og eftir að örvhent skytta Svíanna fékk rautt spjald í seinni hálfleik var eftirleikurinn auðveldur og Selfoss vann öruggan sigur, 30-21. Þeir eru þar með fyrsta liðið frá Selfossi sem nær gullverðlaunum á Norden Cup en Selfoss hefur sent mörg lið til leiks þar undanfarin ár.

Fyrri greinAuðleyst og fljótleyst útkall á Selfossi
Næsta greinYfirlýsing um framboð