Selfyssingar niðurlægðir á heimavelli

Hrvoje Tokic sækir að marki Þróttar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag þegar Þróttur Vogum kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn.

Selfyssingar voru hreinlega niðurlægðir í fyrri hálfleik en Þróttarar voru komnir í 0-4 eftir sautján mínútna leik. Það stóð ekki steinn yfir steini í liði Selfoss og Þróttarar röðuðu inn þremur glæsilegum mörkum og einu minna glæsilegu á fjórðu, tíundu, tólftu og sautjándu mínútu leiksins.

Selfoss fékk ekki teljandi færi í fyrri hálfleik en Þróttarar hefðu getað bætt við og leitt með meiri mun í leikhléi en þá var staðan ennþá 0-4.

Dean Martin, þjálfari Selfoss, gerði þrefalda skiptingu í hálfleik til þess að hrista upp í hlutunum og það gekk eftir. Hrvoje Tokic minnkaði muninn í 1-4 á fjórðu mínútu fyrri hálfleiks þegar hann skallaði frábæra sendingu Þórs Llorens Þórðarsonar í netið. Annars gekk Selfyssingum illa að skapa opin færi í seinni hálfleiknum, Þróttarar vörðust skipulega og höfðu lítið endindi yfir miðju vallarins. Lokatölur leiksins urðu 1-4.

Þrátt fyrir tapið er Selfoss ennþá í 2. sæti með 37 stig en Þróttur Vogum er nú aðeins þremur stigum á eftir þeim í 3. sætinu. Næsti leikur Selfyssinga er gegn toppliði Kórdrengja á útivelli, næstkomandi miðvikudag. Kórdrengir hafa 40 stig í efsta sæti deildarinnar.

Fyrri greinTilvalið að kíkja á bókasafnið í vetur
Næsta greinMikilvæg stig í botnslagnum