Selfyssingar niðurlægðu toppliðið

Eftir hörmulegt gengi í síðustu þremur leikjum svöruðu Selfyssingar fyrir sig og rassskelltu topplið Víkings 6-1 í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Selfyssingar voru miklu betri þær rúmu 90 mínútur sem leikurinn varði og sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri.

Strax á 8. mínútu leiksins fengu Selfyssingar dæmda vítaspyrnu þegar Skúli Sigurðsso, markvörður Víkinga braut á Javier Zurbano. Sindri Snær Magnússon fór á punktinn en Skúli markvörður sá við honum og varði glæsilega.

Sex mínútum síðar spiluðu Selfyssingar glæsilega innfyrir vörn Víkinga þar sem Ingólfur Þórarinsson batt lokahnútinn á sóknina með góðu marki eftir sendingu frá Inga Rafni Ingibergssyni.

Selfyssingar voru hættulegri eftir þetta en Víkingar voru algjörlega andlausir og leyfðu þeim vínrauðu að leika listir sýnar. Á 29. mínútu slapp Svavar Berg Jóhannsson einn framhjá vörn og markverði Víkinga. Varnarmaður gestanna renndi sér á eftir Svavari, tók bæði mann og bolta, Svavar féll en boltinn rúllaði í autt markið. Sjálfsmark, 2-0.

Selfyssingar lokuðu svo auðveldum fyrri hálfleik með glæsimarki á 45. mínútu. Fyrirgjöf frá vinstri inn á vítateiginn þar sem Javier Zurbano tók við boltanum og lyfti honum yfir markvörð Víkinga með laglegri bakfallsspyrnu. 3-0 í hálfleik.

Strax á fimmtu mínútu síðari hálfleiks átti Selfoss góða sókn sem virtist vera að renna út í sandinn þegar Zurbano potaði boltanum innfyrir á Inga Rafn sem lék auðveldlega á markvörð gestanna og skoraði í tómt markið. 4-0 og Víkingar algjörlega slegnir út af laginu.

Á 65. mínútu fengu Víkingar vítaspyrnu þegar brotið var á fyrrum Selfyssingnum Dofra Snorrasyni. Pape Faye fór á punktinn og skoraði af öryggi framhjá Jóhanni Ólafi Sigurðssyni, sem annars átti mjög náðugt kvöld í marki Selfoss.

Víkingar voru þó nær því að skora næsta mark þegar sóknarmaður þeirra pressaði hreinsun frá Juan Martinez við markteiginn og boltinn skaust rétt yfir mark Selfoss.

Á 69. mínútu var Ingi Rafn tekinn af velli en inná kom Kristján Freyr Óðinsson í sínum fyrsta leik í sumar en hann kom til Selfoss að láni frá KA í gær. Kristján er reyndar uppalinn á Selfossi og hann átti eftir að finna sig vel inni á vellinum. Á 77. mínútu slapp hann óvænt einn í gegn en lét Skúla verja frá sér í góðu færi. Honum brást hins vegar ekki bogalistin nokkrum mínútum síðar þegar hann fékk boltann fyrir innan vörn Víkinga og skoraði af öryggi, 5-1.

Kristján átti einnig þátt í sjötta marki Selfoss þegar hann átti frábæra þversendingu yfir á Svavar Berg sem stakk sér inn í teig og rúllaði knettinum undir markvörðinn og í netið.

Eftir þennan stórsigur lyftu Selfyssingar sér upp um eitt sæti og eru nú í 7. sæti með 17 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Haukum á útivelli, næstkomandi miðvikudag.

Fyrri greinHitabylgja í Veiðivötnum
Næsta greinEitt mark dugði Gróttu