Selfyssingar niðurlægðir á heimavelli

Selfoss fékk HK í heimsókn í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Selfyssingar gjörsamlega niðurlægðir í síðari hálfleik og HK vann 0-6.

Selfyssingar voru síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik og áttu nokkrar ágætar sóknir en eina mark fyrri hálfleiks skoruðu gestirnir á 39. mínútu þegar rangstöðutaktík Selfyssinga klikkaði. 0-1 í hálfleik.

HK hóf síðari hálfleikinn á stórskotahríð en Selfyssingar gáfu þeim þrjú mörk á fyrstu sex mínútum síðari hálfleiks og staðan skyndilega orðinn 0-4. Við þetta datt botninn algjörlega úr leiknum hjá Selfyssingum. Þeir fengu þó tvö mjög fín færi um miðjan seinni hálfleikinn sem Elton Barros misnotaði og HK bætti við tveimur mörkum til viðbótar á þriggja mínútna kafla þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Lokatölur 0-6 en þetta er stærsta deildartap Selfoss á heimavelli í 22 ár – upp á dag – en þann 7. ágúst 1992 tapaði liðið 0-6 fyrir Grindavík. Sama ár féllu Selfyssingar úr 2. deildinni.

Fyrri greinFestist utan vegar
Næsta greinÁrborg náði í stig í Vogunum